Vísnahornið




| & | A | B | C | D | E | F | G | H | I | J | K | L | M | N | Ó | P | R | S | T | U | V | W | Ý | Ö | Þ |

Þótt Raufarhöfn skorti hinn andlega auð

Erlingur Thoroddsen hótelstjóri vitnar til þess í viðtali við hann að það eina sem margir viti um tilvist Raufarhafnar sé vísa sem Egill Jónasson, hagyrðingur frá Húsavík, orti um staðinn er hann dvaldi þar um tíma "í síldinni". Þegar ekið var um staði eins og Raufarhöfn með síld á vörubílspöllum fór ekki hjá því að eitthvað af farminum fór til spillis, lenti á götunni, og ef ringningu gerði varð aðkoman ekki glæsileg. Á þeim tíma var ennfremur talið að nóg væri af síld í hafinu og því engin þörf á að hirða allt það sem féll. Síldarverksmiðjan bætti svo um betur, þykkan verksmiðjureykinn lagði yfir þorpið með tilheyrandi "ilmi" sem sat kyrfilega í öllum fötum. Á þessum tíma var öllu vinnufæru fólki haldið að vinnu og enginn tími aflögu til að sinna útliti húsa með málingarpensli eða vera í garðvinnu. Þegar saltað var á plönum á Raufarhöfn voru um 3 þúsund manns á staðnum, eða liðlega sexföld íbúatala staðarins. En þessi umsvif öll voru ein helsta gjaldeyrisöflun þjóðarinniar og þegar best lét fóru um 10% af gjaldeyrisstekjum þjóðarinnar gegnum síldarplön og verksmiðjur á Raufarhöfn.


En Egill Jónasson hefur ekki verið sáttur við ástandið eða umhverfið því kveðskapur hans var eftirfarandi:


Þú ert rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir mörg þín forarsöfn.

Þú er versta víti jöfn
viðmótið er kuldahrollur.
Farðu í rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.


Sigurði Árnasyni, sem ólst upp á Oddsstöðum á Sléttu og var útibússtjóri Kaufélags Norður Þingeyinga á Raufarhöfn um árabil, líkaði ekki"umsögn" Egils um staðinn þar sem hann hafði m.a. tekjur sínar og svaraði honum á eftirfarandi hátt:


Þótt Raufarhöfn skorti hinn andlega auð
og enginn sé fegurðarstaður.
Að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér, aðkomumaður.


Agli hefur augljóslega ekki líkað að Sigurður skyldi setja ofan í við hann
og orti því:


Ég vinni fyrir matnum á mannlegan hátt
og mun reyna að greið´ann að fullu.
En get ekki lofað þann guðlega mátt
sem gerir allt löðrandi í drullu.

Hve grátlega skammt okkar skynsemi nær
á skilningi og nærgætni töluvert munar.
Ég vissi ekki að drullan þér væri svo kær
og verð því að biðja þig afsökunar.


Þess má geta að nemendur grunnskólans á Raufarhöfn fjölluðu í vetur m.a. um þennan kveðskap og fleira á þemaviku í skólanum.

GG Dagur 14.júní.

Höfundur: Egill Jónasson og Sigurður Árnason

Tilefni:

Skráð: 2006-04-05 21:30:01