Vísnahornið




| & | A | B | C | D | E | F | G | H | I | J | K | L | M | N | Ó | P | R | S | T | U | V | W | Ý | Ö | Þ |

Tittlingur

Maður er nefndur Jakob Þórðarson. Hann átti eitt sinn hest rauðan sem hann
kallaði Tittling. Ekki var hann af göfugum ættum, undan rauðu merinni sem
Jakob afi hans keypti af Ingólfi í Dal og einhverjum graðhesti. Frekar var
hestur þessi smávaxinn og mun hafa fengið nafngift sína af því.
Einhverju sinni, námar tiltekið 16. ágúst 1976 var Jakob, þá sveitarstjóri
Grýtubakkahrepps, þeysandi um götur Grenivíkur á Tittlingi sínum. Það varð
efni í vísu.


Hans fer orðstír víða vega,
veldur mörgum bitlingi.
Sveitarstjórinn svakalega
sveittum ríður Tittlingi.


Sveitarstjórinn svaraði þessu á sinn hátt sem ekki verður greint frá hér.

En þetta skemmtilega nafn á hestinum varð til þess að ég fór að leika mér meira með það.
Á reiðtúrum sínum var Jakob ýmist einn eða í flokki annarra reiðmanna.


Þekkist hvar um foldu fer
fljóðum kunnur Þórðar bur.
Undir honum ógnar sver
er og rauður Tittlingur.

Fer á kvöldin fríður her
fyrirmanna um götur hér,
fremstur Jakob jafnan er
með járnaðan Tittling undir sér.


Svo kom að því að Jakob lét af starfi sveitarstjóra og gerðist óbreyttur
vélsmiður.


Jakobs er fallin frægðarsól
forðum þó lýsti víða,
en Tittlingur hans er hörkutól
honum er gott að ríða.


Kvöld eitt er Jakob var búinn að leggja á var allt í einu kominn mikill
fjöldi kvenna kringum þá Tittling og hann.


Sækir að Jakob fljóðafans
með ferlegum köstum rassa
til þess að strjúka Tittling hans,
tala við hann og kjassa.


Svo var það einn daginn að sást til Jakobs hvar hann teymdi Tittling upp
Skólahússbrekkuna. Sjálfur sat hann inni í Land-Rover sínum en Tittlingur
skokkaði við hliðina.


Sumir hafa "sexappeal",
suma kvelur vesöldin.
Á jötunefldum jeppabíl
Jakob dregur Tittling sinn.


Að því kom um síðir að Tittlingur gerðist gamall og var felldur.


Jakob dapur hengir haus,
hans er þrotið megin.
Tregafullur, Tittlingslaus
töltir hann niðurdreginn.

Svo fór um þann mæta mann
sem margir höfðu kviðið.
En meðan Tittling hafði hann
hann gat alltaf riðið.

Til baka horfir hugurinn,
hér var löngum gott til fanga
þegar hann teygði Tittling sinn
Túngötuna endilanga.


Íslendingar hafa um aldir launað reiðhestum sínum vel unnin störf með því
að éta þá. Þannig enduðu líka viðskipti þeirra Jakobs og Tittlings.


Afreksverk hans eru mikil og merk
svo mætti um í heimsfréttum geta.
En það telst vera skammar- og skaðræðisverk
að skera sinn Tittling og éta.


Og var þá nóg komið af svo góðu.


Flestum þeim sem fá að heyra
finnst hér mál að gera stans.
Enginn hefur áður, meira
ort um Tittling náungans.

Höfundur: Björn Ingólfsson



-------------------------------------------------
Sveitarstjórinn svaraði Birni með eftirfarandi vísu:


Margar hafa meyjar liðið
mikið út af bitlingi,
en engar hafa áður riðið
einum saman Tittlingi.

Höfundur: Ýmsir

Tilefni:

Skráð: 2006-04-05 21:30:01