Vísnahornið




| & | A | B | C | D | E | F | G | H | I | J | K | L | M | N | Ó | P | R | S | T | U | V | W | Ý | Ö | Þ |

Páskabæn
Ort í fjósinu á Sveinseyri á páskadagsmorgunn


Taka að gerast allskyns undur,
Einnig þau koma fram á mér.
Líkaminn eins og laminn hundur,
Logandi kvöl um belginn fer.

Kúaskítsbragð í kjafti mínum,
Klígjunnar eykur reginn mátt.
Hulin er náðarsólin sýnum,
Sjáðu nú guð hvað ég á bágt.

Bögglast ég til í báða enda,
Batna finnst lítið um minn hag.
Ógjörla veit hvað við mun lenda,
Vegferð mín þennan páskadag.

Hausinn er eins og hundaþúfa,
Sem hinir og þessir míga í.
Yfir mér allskyns sorgir grúfa,
Unaðinn byrgja rauna ský.

Sárast er þó að sjá og vita,
Svelgda upp hverja deiga lögg.
Grátandi Guð ég þetta rita,
Gefðu nú blómi þínu dögg.

Sendu mér Drottinn glætu á glasi,
Glaðna þá myndi yfir mér.
Þó að ég tíðum hræddur hrasi,
Hrintu mér ekki burt frá þér.

Æ, hafðu það Drottinn heila flösku,
Hugsir þú þér að gleðja mig.
Rísa þá mun ég upp frá ösku,
Elska, virða og lofa þig.

Höfundur: Elías M.V.Þórarinsson

Tilefni:

Skráð: 2013-10-13 22:41:14