Vísnahornið




| & | A | B | C | D | E | F | G | H | I | J | K | L | M | N | Ó | P | R | S | T | U | V | W | Ý | Ö | Þ |

Rímur af Unndóri Jónssyni
1. ríma
Út skal hrinda úr óðar vör
Yggjar lind að blanda
sælir vindar flýti för
fram til yndisstranda.

Burt af stað í brælu og reyk
ber oss hraðar gola,
látum vaða Ægis eyk
eins og graðan fola.

Þegar hallar bylgjan blá
beinhákarls á tröðum
megi allir minnast á
mann frá Hallgilsstöðum

Kæra bil ég bjóða vil
Boðnar lög til happa,
glæða ylinn ástar til
okkar sögukappa.

Vita má að seggur sá
sæll af hylli kvenna
ritar á þær aftan frá
Amors fylipenna

Ekki má í orðum tjá
allt hans stjá með konum
eflaust fá því eftir sá
að hún lá með honum

Ein er fannmjúk önnur föst
ofrög, glanni, stríðin.
Svo hefur kannað kost og löst
kvennamannaprýðin.

Stilltu geð þitt baugabil
breyttu í gleði kvíða.
Ég skal kveða, ég veit skil
ég hef séð hann ríða.

Flýgur stund í vesturveg
víkur skímu gríma.
Meira um Unndór ætla ég
í annan tíma að ríma.

Dreymir allar dætur lands
dýr og falleg kvæði
þótt þær allar krýni krans
kosta og galla bæði

2. ríma
Sögu beima byrja skal
Braga um geima fljúga
þar sem heima í Hörgárdal
horskur geymir kúa.

Snéri á flesta meiri menn
í mörgu lestasvalli.
Héraðsbrestir heyrast enn
í Hörgárprestakalli.

Enginn brosti eins og hann
við Amors kostabita
æ af losta allur brann
eins í frosti og hita.

Fljóð er vissu komu karls
kvað við fliss og læti
allar hryssur Hörgárdals
hófu piss af kæti.

Þústur garða og þúfur túns
þrjóturinn sarð um nætur
þeigi sparði þundur húns
þessar jarðabætur.

Bændur hörðu beittu þá
bæi vörðu að lögum
þegar hann gjörði gras að ljá
og gróna jörð að flögum.

Burtu flæmdu bændur karl
best var sæmd að rek'ann.
Illa ræmdan Amorsjarl
á'onum dæmdu sekann.

Söfnuðust fljóð í fylking þá
frygðarhljóðin skera,
líkt og í stóði folann frjá
flokkaróðra mera.

Ólguðu hreðjar allar þá
hjá Óðins beðju vini,
lostans sveðju á loft hann brá
líkt og í kveðju skini.

Þellur potta þágu af hal
þakkarvottinn skíra,
hélt svo brott úr Hörgárdal
hringaði skott og svíra.

Brá á skeið um bratta leið
bað svo greiða nætur
þar sem beið hans þreföld reið
þrjár voru heiðardætur.

Enginn sakar örvabör
Amors kvak þó heyri,
rétti bak og beindi för
beint á Akureyri.

Nöpur gjóla um foldu fer
fer ég í bólið glaður.
Þollur tóla orðinn er
ungur skólamaður.

Fyllir geiminn Gríma og Hel
feysar eymur nætur.
Allar dreymi ykkur vel
ungu heimasætur.

3.ríma
Ungur dagur uppi stár
enn skal laga vísur.
Blóminn fagur kvenna klár
hvað ertu að draga ýsur.

Nú skal heyra nistisgná
nokkuð meira í ljóðum,
enn um fleiri afrek hjá
Akureyrarfljóðum.

Ástir falar utan hvíld
ekki í tali gljúpur,
eins og hvalur elti síld
eða valur rjúpur.

Lék á strengi lostans við
lofnir spengilegar,
sótti enginn ástarmið
öllu drengilegar.

Orðstýr jóku afreksmanns
ótal bókaskræður
en drýgstan tóku tíma hans
tittlings hrókaræður.

Lærði dúkaliljum hjá,
lærði á mjúka skrokka.
Lærði að strjúka, lærði að kjá,
lærði að brúka smokka.

Af hans Freyjuiðkan hér
eitt ég segja hirði,
hafð'ann dregið heim með sér
hóru úr Eyjafirði.

“Sértu maður” svanninn kvað.
“Sýn mér það í verki,
sýndu að á sínum stað
sé þitt aðalsmerki”.

Manndómshótin menjahlín
myndirðu ótæp finna
ef ég njóta mætti mín
millum fóta þinna.

Flettir kjólnum hringahrund,
hæðin bíður, þegir,
eftir tólum mannsins mund,
mjúka síðan teygir.

Vopnið skók hinn væni þegn
vergjörn tók á móti.
Lífsins bók var lögð í gegn
lostans krókaspjóti.

Skakast búkar titra tré,
teygðar lúkur fálma.
Akast mjúkum kviði kné,
kveða hnjúkar sálma.

Syngur brundur, glennist gátt,
gapir hrundar kviður.
Styngur Unndórs hrín við hátt.
Hefst svo stundarfriður.

Óðara hana á aðra leið
ögurgrani telur.
Hefur þanið þrettán skeið
þegar haninn gelur.

Slíðraði síðan náranað
nú mun lýður skilja
að á'ann frýði ei eftir það
ormahýðislilja.

4.ríma
Bið ég allan landsins lýð
láta falla kvæði.
Degi hallar, döpur tíð
dunar um fjall og græði.

Stökkva læt ég Kjalars kugg
köldum fæti, bylgjur
slökkva kæti, ala ugg
öldum, nætur sylgjur.

Því skal hætta þessum dans
þegja um mættingshlyninn.
Lát' útrætt um reiðlag hans
rýr sem bætti kynin.

Þegar sofa sveitir lands
síst er of að spyrja.
Eru ei klofin öll í fans
Unndórs lof að kyrja.

Saga Unndórs er hér skráð
á eina lund að vonum.
Hvert eitt sprund um lög og láð
liggur undir honum.

5.ríma
Sefur bróðir síðsta blund
syrgir þjóð að vonum,
ótal góða ástarstund
áttu fljóð með honum.

Höfundur: Kristján Eldjárn

Tilefni: 5.ríman þessi eina vísa er ort eftir dauða Unndórs.

Skráð: 2007-11-11 11:57:03